Skólinn byrjaður
Sælt veri fólkið,
Þá er þetta nú allt byrjað og maður búinn að koma sér þokkalega fyrir. Þetta er vika tvö í skólanum og lítur bara þokkalega út. Er búinn að skrá mig í fótboltafélagið í skólanum og fyrsta æfing verður næstkomandi sunnudag. Í gær var síðan farið og keypt sér eitt stykki hjól. Það er svolítið öðruvísi upplifun að kaupa sér hjól hér eða á Íslandi. Hérna kaupa allir notað hjól meðan á skólaári stendur og skilja það síðan eftir. Ég fékk einn glæsilegan gráleytan fák með 15 gírum og brettum á um 5.000.- ísl krónur. Ekki slæmt :) þannig að það tekur nú um rétt 10 mín að hjóla í skólann.
Síðan í seinustu viku lenti ég á ansi skemmtilegu diskóteki. Það var nefnilega rokk kvöld í skólanum og þar var enginn annar en Andy Rourke fyrrverandi bassaleikari í einni af mínum uppáhalds hljómsveitum: The Smiths. Ég reyndi að heilsa kauða með rokkkveðju en hann sá mig ekki :(
Einnig frétti ég það að meðlimir Pink Floyd voru allir nemendur í sama skóla og ég er í, og það var víst þessi skóli sem þeir kynntust í. Ég vona bara að ég fái sama innblástur og þeir gerðu í denn.
Góðar stundir,
Björn Floyd